2007


1.035 milljóna króna hagnaður hjá Frjálsa  - Arðsemi eigin fjár 50%

Samkvæmt árshlutareikningi Frjálsa fjárfestingarbankans hf. fyrir fyrri hluta
árs 2007,  nam hagnaður bankans 1.035 millj. kr. eftir skatta samanborið við
580 millj. kr. árið 2006 sem er aukning á hagnaði um 78%.   Arðsemi eigin fjár
var 50%.  Hagnaður fyrir skatta nam 1.254 millj. kr. og nam því reiknaður
tekjuskattur 219 millj. kr. 

Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlegar reglur um gerð
samstæðureikningsskila (IFRS). 

Hreinar vaxtatekjur námu 323 millj. kr. á tímabilinu samanborið við 656 millj.
kr. fyrir sama tímabil 2006 sem er 50% lækkun á hreinum vaxtatekjum. 
Vaxtamunur var 1,1% á tímabilinu samanborið við 3% vaxtamunur á sama tímabili
2006.    Ástæða lækkunar á hreinum vaxtatekjum eru einkum tvær: Annars vegar má
rekja lækkun á vaxtamun til þess að á fyrri hluta árs 2006 átti bankinn mikið
af verðtryggðum eignum umfram verðtryggðar skuldir sem skóp miklar
verðbótatekjur þar sem verðbólgustig var óvenju hátt á þessu tímabili. Nú á
árinu 2007 hefur þessi verðtryggingaójöfnuður lækkað  mikið en er þó enn til
staðar.  Þar sem verðbólga var tiltölulega lág á fyrstu sex mánuðum ársins 2007
og stýrivextir Seðlabanka Íslands háir var óhagstætt að fjámagna verðtryggð
útlán með óverðtryggðu skammtíma lánsfjármagni.  Skammtímaáhrif þessa í
árshlutareikningi bankans kemur því fram í lækkun hreinna vaxtateknu og lægri
vaxtamun á tímabilinu.  Hins vegar má rekja lækkun á vaxtamun frá fyrra
tímabili til þess að stærri hluti eigna bankans eru nú bundin í eignum sem
mynda annars konar tekjur en vaxtatekjur. 

Þjónustutekjur hækka um 24% frá fyrra tímabili og námu alls 62 millj. króna.  
Aðrar rekstrartekjur námu alls 1.158 millj. kr. og nærri þrefölduðust miðað við
sama tímabil 2006.  Mikil hækkun á hreinum tekjum af fjáreignum og fjárskuldum
er helsta ástæða hækkunar á öðrum rekstrartekjum. 

Kostnaðarhlutfall Frjálsa var rúm 15% á tímabilinu og lækkar mikið á milli ára
eða úr 21% á sama tímabili 2006.  Önnur rekstrargjöld námu alls 236 millj. kr.
samanborið við 211 millj. kr. á sama tímabili 2006 sem er um 12% hækkun. 
Hlutfall annara rekstrargjalda af hreinum rekstrartekjum  var 15% á tímabilinu
2007 samaborið við 21% árið 2006. 

Niðurstaða efnahagsreiknings var 63.077 millj. kr. í lok júní 2007 og hefur
hækkað um 14% frá áramótum.  Heildarútlán  námu alls 57.307 millj. kr. í lok
júní 2007 og  hækkuðu því útláns bankans um 8% frá áramótum 

Virðisrýrnun útlána nam 53 millj. kr. á tímabilinu 2007  samanborið við 87
millj. kr. á sama tímabili 2006.  Endanlega töpuð útlán voru óveruleg á
tímabilinu 2007.    Vanskilahlutfall  nam 0,45% af heildarútlánum í lok júní
2007   Afskriftareikningur útlána í lok júní 2007  nam 382 millj. kr. sem er
0,7%  hlutfall af heildarútlánum. 

Eigið fé í lok júní 2007 nam 5.655 millj. kr. og hefur hækkað um 22% frá
áramótum. 
Eiginfjárhlutfall (CAD) bankans í lok júní 2007 var 14,0% en var 13,3% um
síðustu áramót. 

Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Frjálsa.  “Enn eitt tímabilið er afkoma
bankans sú besta í sögu hans, hagnaður er rúmur milljarður króna og arðsemi
eigin fjár var 50%.  Undanfarin 5 ár hefur mikill vaxtamunur skapað góða afkomu
bankans en nú á þessu tímabili eru það tekjur af verðmætaaukningu fjárfestinga
í öðrum félögum sem ber glæsilega afkomu uppi.  Ójafnvægi í verðtryggðum eignum
og skuldum hefur haft tímabundinn áhrif á hreinar vaxtatekjur bankans.  Bankinn
naut þessara áhrifa á fyrri hluta árs 2006 en geldur áhrifa þeirra á fyrri
hluta árs 2007.   Líklegt má telja að  áhrifa ójafnvægis í verðtryggingajöfnuði
muni gæta út árið 2007 en á þeim tímapunkti er stefnt að því að  jafnvægi hafi
náðst.    Horfur fyrir seinni hluta árs 2007 eru góðar en búast má við að
félagið haldi áfram að vaxa og  styrkja sess sinn á íslenskum útlánamarkaði “ 

Kristinn Bjarnason 
framkvæmdastjóri

Attachments

arshlutareikningurffb300607_isl.pdf frjalsi - lykiltolur.pdf