Ársuppgjör 2010


Fimmtudaginn 7. apríl 2011 var ársreikningur Snæfellsbæjar 2010 tekinn til fyrri umræðu. Eins og sveitarstjórnarlög kveða á um, skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn. Síðari umræða um ársreikningurinn verður fimmtudaginn 5. maí n.k.

Í reglugerð nr. 944/2000, um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, sem tók gildi 1. janúar 2001, eru ákvæði um reikningsskil sveitarfélaga. Þar er gert ráð fyrir að sveitarfélög hagi bókhaldi sínu og reikningsskilum í samræmi við ákvæði laga um bókhald nr. 145/1994 og ársreikninga nr. 144/1994 að svo miklu leyti sem sveitarstjórnarlög mæla ekki fyrir á annan veg eða reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Ársreikningar sveitarfélaga skulu byggðir á almennum reikningsskilaaðferðum.

Ársreikningur Snæfellsbæjar fyrir árið 2010 byggir á sömu reikningsskila­aðferðum og árið áður í samræmi við framangreind lög og reglur.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 1.559,3 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.329,5 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.204,0 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.046,0 millj. króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var rekstrarafgangur að fjárhæð um 127,3 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir tapi upp á 112,7 millj. króna. Afkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 240,0 millj. króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var rekstrarafgangur að fjárhæð 73,7 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir tapi upp á um 109,0 millj. króna. Afkoman varð því betri sem nemur 182,7 millj. króna. Ástæða þessa er að mestu leyti hærri skatttekjur og lægri fjármagnsgjöld en áætlun ársins 2010 gerði ráð fyrir, enda þótti rétt að hafa allar tekjuáætlanir varfærnar ásamt því að gert var ráð fyrir hærri verðbólgu á árinu en raunin varð. 

Veltufé frá rekstri var 250,5 millj. króna og veltufjárhlutfall er 1,4. Handbært frá rekstri var 249,8 milljónir.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 2.750,4 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 3.531,1 millj. króna í árslok 2010. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.378,0 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.815,9 millj. króna, og lækkuðu þar með milli ára um 78,6 milljónir.

Fjárfestingarhreyfingar voru 208,9 milljónir og fjármögnunarhreyfingar 112,6 milljónir. Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 213,9 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán upp á 80,0 millj. króna en greiddi niður lán að fjárhæð 192,6 milljónir.

Álagningarhlutfall útsvars var 13,28 %. Álagningahlutfall fasteignaskatts nam 0,44% á íbúðarhúsnæði og álagningarhlutfall á aðrar fasteignir nam 1,55%.

Hægt verður að nálgast ásreikninginn á bæjarskrifstofunni Snæfellsási 2, Hellissandi, sími 433-6900. Einnig á heimasíðu Snæfellsbæjar, www.snb.is.


Attachments

Snfellsbr 2010.pdf Lykiltolur.pdf