Sjóvá-Almennar tryggingar hf - Samningur um viðskiptavakt


Helstu skilmálar viðskiptavaktar með hlutabréf í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. („Sjóvá“ eða „félagið“)

 

Stjórn Sjóvár hefur sótt um töku hlutabréfa í félaginu til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Reiknað er með að viðskipti með bréfin geti hafist þann 11. apríl 2014 hið fyrsta. Í tengslum við skráninguna hefur félagið gert samninga við Íslandsbanka hf. og Landsbankann hf. um viðskiptavakt með hlutabréf í félaginu. Samningarnir taka gildi þegar hlutir í Sjóvá hafa verið teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Viðskiptavaktirnar eru fyrir eigin reikning framangreindra banka og greiðir félagið þóknun fyrir þessa þjónustu. Samningarnir kveða á um að viðskiptavakarnir skuli setja fram kaup- og sölutilboð í hluti í Sjóvá á hverjum viðskiptadegi Kauphallarinnar.

Fjárhæð kaup- og sölutilboða viðskiptavaka skal vera að lágmarki í 1.000.000 hluti á gengi sem hvor viðskiptavaki fyrir sig ákveður, frávik frá síðasta skráða viðskiptagengi skal þó ekki vera meira en 3%. Hámarksmunur kaup- og sölutilboða er 1,5%. Tilboð skulu endurnýjuð eins fljótt og unnt er og eigi síðar en 10 mínútum eftir að þeim er tekið að fullu. Ef viðskipti viðskiptavaka með bréf í félaginu, sem fara um eigin viðskipti (veltubækur) viðskiptavaka, fara yfir 8.000.000 hluti innan dags fellur niður skylda um hámarksmun kaup- og sölutilboða innan þess dags hjá Íslandsbanka og skylda um að endurnýja tilboð þann dag hjá Landsbanka. Ef verðbreyting á hlutabréfum Sjóvár innan dags nær 10% er Landsbankanum heimilt að tvöfalda hámarksverðbil milli kaup- og sölutilboða tímabundið þann dag. Samningur Sjóvár og Íslandsbanka er ótímabundinn en uppsegjanlegur af beggja hálfu með fjórtán daga fyrirvara. Samningur Sjóvár og Landsbankans er ótímabundinn en uppsegjanlegur af beggja hálfu með eins mánaðar fyrirvara.

 

Nánari upplýsingar veitir Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga, í síma 440-2135 eða í netfangið thordur.palsson@sjova.is