Hlutafjárútboð - Upplýsingar um gengi og fjölda hluta


Stjórn Marel Food Systems hf. hefur ákveðið að útboðsgengi á nýjum hlutum í
félaginu, sem boðnir verða til sölu í útboði þann 5. og 6. júní 2008, verði
89,00 krónur á hlut, sem jafngildir yfir 6% lægra verð frá lokagengi félagsins
3. júní sl. Jafnframt ákvað stjórnin að heildarfjöldi hluta sem boðnir verða
til sölu í útboðinu verði 156.440.000 hlutir. Heildarsöluvirði útboðsins er
krónur 13.923.160.000 eða sem svarar til um € 117 milljónir. 

Ef umframeftirspurn verður í útboðinu, áskilur stjórn Marel Food Systems hf.
rétt til þess að fjölga þeim hlutum sem boðnir verða til sölu um allt að
40.115.000 hluta. Nýti stjórnin sér þessa heimild verður heildarsöluvirði
útboðsins allt að krónur 17.493.395.000 eða sem svarar allt að € 147 milljónir. 

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. hefur umsjón með hlutafjárútboðinu.