- 6 mánaða uppgjör 2008


Afkoma lánasjóðsins á fyrri hluta ársins 2008 var yfir væntingum og er
tekjuafgangur  1.162,7 m.kr. á móti 681,8 m.kr. fyrir sama tímabil fyrra árs.
Útlán sem fjármögnuð eru með eigin fé eru verðtryggð og hefur hækkun vísitölu
neysluverðs því áhrif á afkomuna til hækkunar. Vextir af þeim lánum voru
lækkaðir 1. apríl sl. úr 5,95% í 5,0%. Einnig var ávöxtun á lausu fé góð vegna
hárra skammtímavaxta. 

Hlutverk sjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og
fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum til verkefna sem hafa almenna
efnahagslega þýðingu. Samþykktar lánveitingar á fyrri hluta ársins 2008 voru
10,5 ma.kr., en útborguð langtímalán voru 6,3 ma.kr. miðað við 1,5 ma.kr. á
sama tíma árið 2007. Vanskil eru engin og hefur sjóðurinn ekki tapað útláni frá
því að hann hóf starfsemi árið 1967. Vaxandi eftirspurn er eftir þjónustu
sjóðsins. 

Á tímabilinu gaf sjóðurinn út skuldabréf að fjárhæð 2,3 ma.kr. á innlendum
skuldabréfamarkaði og tók að láni 45 m EUR hjá erlendum aðilum. 

Eigið fé í lok tímabilsins var 11,2 ma.kr. á móti 10.0 ma.kr. í árslok 2007.
Vegið eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í lok tímabilsins 112,0%
skv. eldri reglum en 86,6% samkvæmt hinum nýju Basel II reglum. Ný
eiginfjárkrafa vegna rekstraráhættu hefur neikvæð áhrif á hlutfallið, en sú
krafa er reiknuð á grundvelli hreinna rekstrartekna síðustu þriggja ára, en þær
eru tiltölulega háar hjá sjóðnum vegna sterkrar eiginfjárstöðu. 

Sjóðurinn starfar sem lánafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki og skv.
lögum um hlutafélög. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans, en
tryggingar fyrir útlánum hans eru í tekjum sveitarfélaga skv. 3. mgr. 73. gr.
sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. reglugerð um tryggingar Lánasjóðs
sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags nr. 123/2006. 

Nú er gert ráð fyrir að hagnaður lánasjóðsins fyrir árið í heild verði nokkuð
meiri en var á árinu 2007, aðallega vegna hækkandi verðlags á árinu og hárra
skammtímavaxta. 


Nánari upplýsingar veitir: Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, s. 515 4900

Attachments

arshlutareikningur 30 06 08.pdf frettatilkynning - 06 2008.pdf