Tilkynning um hlutafjárútboð meðal fagfjárfesta


Marel Food Systems hf. (Marel) efnir til hlutafjárútboðs meðal fagfjárfesta. 
Tilgangur útboðsins er að styrkja frekar lausafjárstöðu félagsins, ásamt því að
auka sveigjanleika og minnka rekstraráhættu. 
Nýi Kaupþing banki hf. (Kaupþing) hefur umsjón með útboðinu sem verður með
áskriftarfyrirkomulagi (e. book building. 
  
Helstu skilmálar útboðsins:
Stærð - Marel hyggst bjóða fjárfestum til sölu 20 til 35 milljónir nýrra hluta.
Verð - Stefnt er að því að selja hlutina á verðbilinu 54-60 krónur á hlut. Við
afmörkun verðbilsins var tekið mið af skráðu meðalverði viðskipta með hlutabréf
félagsins frá birtingu fjárhagsuppgjörs fyrir fyrsta fjórðung yfirstandandi
árs. Lokaverð í kauphöll var að meðaltali 59,5 á því tímabili sem telur 16
viðskiptadaga og lokaverð í gær, 2. júní 2009, var 63. 
Fjárfestar - Útboðið nær til takmarkaðs hóps fagfjárfesta.
Lágmarksáskrift - Fjárfestir getur að lágmarki skráð sig fyrir kaupum að
andvirði 5 milljónir króna. 
Sölutímabil - Markaðsviðskipti Kaupþings taka við tilboðum til kl. 16
föstudaginn 5. júní 2009. Form tilboða er ekki staðlað. Hvenær sem er á
sölutímabilinu áskilur stjórn Marels sér rétt til að stytta eða framlengja
tímabilið. 
Endanleg áskrift - Í lok sölutímabils mun stjórn Marels ákveða stærð útboðs,
útboðsverð og úthlutun áskrifta í fyrirhuguðu útboði. Öllum áskriftum verður
úthlutað á einu og sama útboðsverði.
 
Við úthlutun áskriftarskuldbindinga mun stjórnin leggja til grundvallar það
gengi og þá fjárhæð sem fjárfestar eru reiðubúnir að skrá sig fyrir, hversu
tímanlega viljayfirlýsingarnar berast, áreiðanleika og gæði fjárfesta. Stjórnin
mun jafnframt hafa til hliðsjónar að mikilvægt er fyrir félagið að eiga í
hluthafahópi sínum aðila sem geta og vilja standa með félaginu í framtíðinni.

Stjórn Marel áskilur sér rétt til að taka eða hafna hvaða tilboðum sem hún kýs
að hluta eða öllu leyti, þar með talið að hafna öllum. 
Umsjónaraðili mun tilkynna fjárfestum um úthlutunina og senda þeim þar til gert
eyðublað til staðfestingar á skuldbindandi áskrift. Um frest til að skila
áskriftum, gjaldfrest áskrifta, afhendingu nýrra hlutabréfa og aðra
útboðsskilmála fer samkvæmt ákvæðum eyðublaðsins. 
Fyrirhugað útboð var ákveðið af stjórn Marel í dag þann 3. júní 2009. Stjórnin
byggir ákvörðun sína á heimild til hlutafjár¬hækkunar sem veitt var á aðalfundi
félagsins 10. mars 2009. Í kjölfarið mun Marel óska eftir því að nýir hlutir
verði teknir til viðskipta hjá Nasdaq OMX Iceland (OMX ICE). 


Nánari upplýsingar veita: 
Theo Hoen, forstjóri Marel, í síma +354 563-8000 
Arnar Ragnarsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, í síma
+354 444-6802 
Leó Hauksson og Ríkharður Daðason, markaðsviðskiptum Kaupþings, í síma
+354 444-7341 og +354 444-7326