VÍS: Endanleg dagskrá hluthafafundar 14. desember 2018


Stjórn Vátryggingafélags Íslands hf. hefur boðað til hluthafafundar í félaginu sem verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins að Ármúla 3, 108 Reykjavík, föstudaginn 14. desember 2018. Fundurinn hefst stundvíslega kl. 16:00.

Engar breytingatillögur við áður auglýsta dagskrá fundarins bárust innan tilskilins frests og er því endanleg dagskrá fundarins og tillögur óbreyttar frá því sem fram kom í fundarboði, dags. 19. nóvember s.l.

Dagskrá fundarins verður svohljóðandi:

  1. Kosning stjórnar
  2. Önnur mál löglega upp borin.

Stjórn VÍS hefur borist krafa um að beitt verði margfeldiskosningu til kosningar stjórnar VÍS sem fram fer á hluthafafundinum. Krafan var send til stjórnar innan tilskilins frests og barst frá hluthöfum sem hafa yfir að ráða meira en 10% hlutafjár, sbr. 7. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Margfeldiskosningu verður því beitt við stjórnarkjörið.

Margfeldiskosning fer fram með eftirfarandi hætti: Kosið skal á milli einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis skal margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa skal og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum, sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Ef ekki er á atkvæðaseðli getið skiptingar atkvæða á milli þeirra sem þau eru greidd skal þeim skipt að jöfnu.

Ekki verður hægt að greiða atkvæði með rafrænum hætti á fundinum. Hluthafar geta óskað eftir því að fá atkvæðaseðla senda til sín og skal skrifleg beiðni þar um hafa borist til höfuðstöðva félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir auglýstan hluthafafund. Einnig geta hluthafar vitjað atkvæðaseðla sinna í höfuðstöðvum félagsins frá sama tíma eða greitt þar atkvæði. Aðilar sem eru eignaskráðir hluthafar í hlutaskrá skv. hlutaskrárkerfi félagsins þegar hluthafafundur fer fram geta beitt réttindum sínum á hluthafafundi. Hluthafar geta látið umboðsmann sækja fundinn fyrir sína hönd. Umboðsmaður skal leggja fram skriflegt og dagsett umboð. Tekið skal fram að umboð getur aldrei gilt lengur en í eitt ár frá dagsetningu þess.

Fundargögn verða afhent á fundarstað og eru þau á íslensku og ensku en hluthafafundurinn fer fram á íslensku. Nánari upplýsingar um réttindi hluthafa og annað sem varðar hluthafafundinn, svo sem eyðublöð og slíkt, mun vera að finna á vefsíðu félagsins: www.vis.is/fjarfestar.

Reykjavík, 7. desember 2018.
Stjórn Vátryggingafélags Íslands hf.